Við komum heim eftir 19 daga ferð til Namibíu með brosið fast allan hringinn. Fádæma fallegt land, auðugt af fjölbreyttu dýralífi og ómetanlegt að upplifa það að sitja í nokkurra metra fjarlægð frá stærstu og hættulegustu rándýrum heims, sjá fíla, nashyrninga, krókódíla og flóðhesta sinna sínum málum í náttúrulegu umhverfi þeirra er bara ógleymanlegt. Menning þjóðflokkanna og fólkið sem við fengum að sjá og kynnast lítillega var heillandi og fengur að fá tækifæri til að heimsækja. Fararstjórinn okkar, hún Birna, þekkti land og þjóð frá því hún bjó þar um árabil og miðlaði af þekkingu sinni og reynslu. Henni til halds og trausts var síðan innlendi leiðsögumaðurinn og bílstjórinn sem sem vann hug og hjörtu allra í hópnum með viðmóti sínu og þekkingu á landi sínu og þjóð. Við fórum víða um Namibíu og gistum á sérbúnum gististöðum/hótelum inni á verndarsvæðum fyrir dýralíf. Aðbúnaður þar, þjónusta og þjónustulund var með því besta sem við höfum upplifað á ferðalögum og maturinn hreint afbragð. Árni E. Albertsson og Elínrós Eiríksdóttir